Tvö námskeið að byrja og spennandi sýningar framundan
Kæru Improv unnendur!
Það eru tvö námskeið að fara af stað á næstu vikum og síðustu sýningar vetrarins eru framundan og þær eru svo sannarlega ekki af verri endanum.
Spuni 201 - Leikurinn byrjar á sunnudaginn og það eru bara 2 laus pláss eftir á námskeiðið svo það er um að gera að hafa hraðar hendur og skrá sig strax. Nánari upplýsingar um námskeiðið og skráningu eru hér.
Spuni 401 - Pretty Flower byrjar svo 20. apríl. Spunaformið, sem er einskonar samblanda af Mónósenu og Montage, er fjörugt og skemmtilegt og þjálfar spunaleikarana í að hvíla, spila eðlilega, sjá grínhugmyndir og fylgja fjörinu. Nauðsynlegt er að hafa farið á amk. 1 spunanámskeið áður til að skrá sig. Nánari upplýsingar um námskeiðið og skráningu er hér.
Það eru svo mjög spennandi sýningar framundan í apríl og maí:
19. apríl - Partýsýning
Á síðasta degi vetrar ætlum við að senda áhorfendur hlæjandi út í sumarið með Partýsýningu. Saga Garðarsdóttir snýr aftur í sýningahópinn á sýningunni og verður mónólógisti.
26. apríl - Improv Ísland vs. Venjulegt fólk
Stjörnur þáttarins Venjulegs fólks sem slegið hefur í gegn í Sjónvarpi Símans verða gestir og ekki við öðru að búast en að þakið fari af Þjóðleikhúsinu.
3. maí - Improv á ensku
Við ætlum að spinna á ensku alla sýninguna. Um að gera að bjóða enskumælandi vinum sem hafa úr allt of litlu að moða í leikhúsflórunni. Uppistandarinn Rebecca Scott Lord sem slegið hefur í gegn með uppistandshópnum Fyndnustu mínar verður gestur.
10. maí - Improvision
Það styttist í Eurovision og milli undankeppnana ætlum við að halda okkar eigin Eurovisionkeppni þar sem lögin verða spunnin á staðnum og áhorfendur velja sigurvegara! Með okkur verður hljómsveit skipuð okkar bestu hljóðfæraleikurum.
17. maí - Lokasýning
Síðasta sýning leikársins og gestirnir verða sannarlega ekki af verri endanum en verða tilkynntir síðar.
Miðasala á sýningarnar eru í fullum gangi á hér.